Velkomin í stuðið

Gat ekki sagt nafnið mitt þegar ég var lítil og kaus því að kalla mig Bakkabakki

þriðjudagur, september 09, 2008

Besta afmælisgjöfin

var the ugly naked guy.

Það er gaur í íbúðinni á móti okkur að flytja inn og hefur sést tvisvar sinnum í vikunni og í bæði skiptin verið ber að ofan. Hann er reyndar ekkert ugly a.m.k. ekki á kroppinn. Það sem er samt ljótt við þetta allt saman er að hann er svo að sýna sig þar sem hann kveikir öll ljós í húsinu svo hann sjáist betur og fer út á svalir til að tala í símann.
Ég ætti kannski að hugsa mig aðeins um áður en ég vappa um hérna heima, jafnvel þó ég sé með slökkt ljós, fyrst það sést svona vel á milli.

laugardagur, júní 14, 2008

Menningarsjokk

Komum heim frá Orlando í gær eftir frábæra ferð með allri familíunni. Það var æðislegt veður, um 35° alla dagana. Það sem við gerðum var að:
  • liggja í sólbaði
  • kíkja í Sea World
  • versla slatta
  • hafa það rólegt og gott
  • trúlofa okkur

Ég fór svo í bónus í dag og fékk mikið menningarsjokk. Þar komst ég að því hvað við Íslendingar erum miklir ruddar. Allir að troða sér og með þvílíkan yfirgang. Úti baðst fólk afsökunar ef það þurfti að komast framhjá manni. Ekki séns að fólk geri það hér, heldur ýtir það við hvort öðru þar til það kemst leiða sinna. Óþolandi fjandi...

laugardagur, maí 17, 2008

Makedónía og greddumóða

Þvílíkt ferðalag að ferðast til Makedóníu. Flugum frá Íslandi til Köben, Köben til Búdapest og Búdapest til Skopje. Lögðum af stað 5.30 og vorum komin á leiðarenda um 1.
Fengum fínan tíma í Búdapest til að kíkja í bæinn og auðvitað náði ég að kíkja í tvær búðir þar á meðal H&M. Tókum taxa í bæinn og það er sko ekki hægt að tala um umferðarmenningu þar á bæ. Þvílík geðveiki, allir á flautunni og fólk að reyna að henda sér fyrir bíla, a.m.k. einn kall. Hef aldrei á ævinni séð neinn hlaupa eins hratt aftur á bak eins og þennan gaur sem tókst næstum því að henda sér fyrir taxann okkar.
Hótelið okkar í Skopje var fyrir ofan bæinn í trjávöxnu fjalllendi með nokkrum útskotum. Þegar við vorum að keyra þangað um kvöldið/nóttina sáum við bíl sem hafði verið lagt í einu af útskotunum fullan af móðu. Eftir því sem við keyrðum ofar því fleiri bíla sáum fulla af móðu og í þeim fór fram sem gift fólk veit bara hvað er. Við urðum frekar hissa að sjá þetta en okkur datt helst í hug að þetta væri Öskjuhlíð Makedóna, þvílíkir dónar ;) Þegar við vorum komin á hótelið spurðum við hvað væri um að vera í hlíðinni. Þá sagði einn okkur að þarna væri fólk að vinna á þrískiptum vöktum.... Við vissum ekki alveg hvort við áttum að trúa því og ákvaðum því að spyrja fleiri og við fengum mjög misvísandi svör.
Það var skrítið að fara á æfingu í íþróttahúsinu þar sem það angaði af sígarettufílu og ekki skánaði það þegar við kepptum. Dómararnir reyktu á milli hrina og áhorfendur allan leikinn. Stemmningin í höllinni var gríðarleg og talsvert fleiri áhorfendur heldur en á blakleik á Íslandi. Fyrri leikurinn var afar slappur hjá okkur, m.a. vegna flugþreytu, en seinni leikurinn var mjög góður þrátt fyrir annað 3-0 tap. Þeir fundu ekki þjóðsönginn okkar fyrir seinni leikinn þannig að við reddum því með því að syngja hann sjálfar.... þvílík gæs og stemmning sem skapaðist í liðinu. Skvísurnar í Makedóníu liðinu eru ekki að æfa nema frá 7-14 x í viku meðan við erum að æfa 4x svo það var smá getumunur en hæðarmunurinn var enn meiri.
Kíktum í smá bæjarferð einn daginn sem var mjög gaman. Verð samt að segja að Búdapest heillaði mín mikið meira en Skopje enda að mínu mati mjög aðlaðandi borg fyrir utan umferðarmenninguna.
Síðasta kvöldið mitt úti (sunnudag) kíktum við út á lífið og þvílík gestrisni. Þegar við mættum á einn pöbbinn var komið með 1 1/2 líter af vodka og stuttu seinn aðra flösku í boði hússins. Svo þar sem Elsa átti afmæli var komið með kampavín og blys fyrir okkur. Þetta var bara snilld bæði kvenna- og karlaliðið var á staðnum auk karlaliðs Kýpurs þar sem þeir voru að keppa á móti Makedóníu á sama móti. Við vorum komin heim um 2 og ég átti flug heim 5 svo það var ekkert sofið þá nóttina. Ég flug eins til baka eins og út. Nema á bakaleiðinni hafði ég 4 tíma í Köben og ætlaði mér að nýta þá í botn í Fields. Ég dreif mig með fyrstu lest en þegar ég kom í Fields var lokað, svo ég ákvað á kíkja á Strikið. Nei nei...þá var allt lokað þar líka nema einhverjar souvenir búðir. Frekar svekkjandi en ætli það sé ekki vaninn að hafa allt lokað Annan í hvítasunnu? Ég rölti því í rólegheitum um Strikið og kíkti svo á Istergade og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá allar hórurnar. Þær voru nefnilega ekki þar þegar ég bjó úti 2001 svo ætli Istergade sé ekki orðin eins og hún var í den, sóðaleg.
Mikið var svo gott að koma heim og geta knúsað gullin mín þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið langur tími sem ég var í burtu þá gat ég ekki beðið eftir því að komast heim og knúsað þau.
Annars var þetta frábær ferð í alla staði!!

föstudagur, maí 02, 2008

Breyttir tímar

Það er ekkert smá mikið að gera eftir að ég kom úr fæðingarorlofinu. Skil ekki þegar fólk segir að það sé ekkert frí að vera í fæðingarorlofi. Ég er búin að vinna í tvo daga og farið svo á æfingar á kvöldin, þannig að ég sé varla fjölskylduna mína og hef ekki tíma til neins sem ég hafði meðan ég var í orlofi. Það er frí að vera í fæðingarorlofi, núna hrannast upp þvottur og enginn tími til að ryksuga né vaska upp. Í orlofinu gat ég bara valið mér hvaða tíma sem var til að sinna þessum verkum. Núna getur maður bara notað helgarnar til að gera e-ð skemmtilegt eða þær fara í uppvask, þvott og önnur heimilisstörf en fyrir 3 dögum gat ég gert e-ð skemmtilegt alla daga.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Rómantík og skothríð

Það gengur á ýmsu hér í blokkinni þegar maður er að reyna að sofna. Um miðnætti í gær lagðist ég upp í rúm og ætlaði að fara að sofa en þá er gaurinn á 2. hæð með tónlist í botni, rólega og rómantíska, Lady in red, You are beautiful o.fl. í þeim dúr. Gaurinn á 3. hæð er að ég held tölvuleikjafíkill og var á fullu að drepa e-a, líklega að drepa aðra fíkla online svo það var mikið um skothríð og sársaukahljóð. Ég spurði mig hvort það væri betra að sofna við þessa skothríð eða tónlistina og ég komst að því að skothríðin var meira svæfandi og við það sofnaði ég.

föstudagur, mars 07, 2008

Láttu póstinn koma því til skila

Mamma fór með pakka til Sunnu Rósar í póst fyrir rúmum 2 vikum og hann hefur ekki ennþá skilað sér. Hún er búin að hafa samband við póstinn og þar er sagt að pakkinn hafi aldrei verið skráður. Þannig að maður spyr sig hvort þeim hjá póstinum hafi litist svona vel á pakkann og ákveðið að eiga hann í stað þess að skrá hann og skella honum í póst ásamt öðrum pökkum. Alveg órtúlega fúlt og hún fékk ekkert viðtökunúmer svo við getum ekki einu sinni rakið hvar pakkinn er.

Ég held að pósturinn ætti að endurskoða slagorðið sitt.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Vorspenningur

Loksins nenni ég að blogga e-ð enda orðin ansi spennt fyrir vorinu. Er það ekki annars alveg að koma?
  • Ég byrja í nýrri vinnu í maí þegar ég er búin í fæðingarorlofinu. Mjög spennandi starf hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar sem gengur út á að veita geðfötluðum þjónustu í þeirra umhverfi, t.d inni á þeirra heimili.
  • Fer til Orlando með fjölskyldunni, gamla settinu, bræðrum mínum, mökum þeirra og börnum í rúmar 2 vikur.

Svo þegar við komum frá USA verður komið sumar ;)